Litlu stúlkunni sem brenndist í Þorlákshöfn í gær, gengur þokkalega og er líðan hennar eftir atvikum að sögn læknis á bráðmóttöku barna á Landspítalanum.
Á mbl.is er haft eftir Michael Clausen, lækni á LSH, að betur hafi farið en á horfðist.
Stúlkan, sem er 14 mánaða gömul, fékk yfir sig pott af heitu vatni á heimili sínu í Þorlákshöfn í gær. Foreldrar hennar kældu sárin og óku með stúlkuna til móts við sjúkrabíl sem kom frá Selfossi.
Hún var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og þaðan á bráðamóttöku Landspítalans í Reykjavík.
Stúlkan brenndist á fingrum og tám og var einnig með roða á bringu. Michael á von á því að hún verði á Landspítalanum í nokkra daga í viðbót.