Bið eftir snjóbíl loks á enda

Eftir þriggja ára bið hefur Björgunarfélag Árborgar loksins fengið nýjan snjóbíl í hendurnar.

Bíllinn, sem er af gerðinni Prinoth Husky, var pantaður frá Ítalíu árið 2008 og kostaði þá um 9 milljónir króna. Hrun íslensku krónunnar varð hins vegar til þess að verðið rauk upp og samdi björgunarfélagið þá við ítölsku verksmiðjuna að bíða með afhendingu bílsins.

Hann kom síðan til landsins í nóvember á síðasta ári eftir að félagið hafði samið við Íslandsbanka fjármögnun að lána fyrir eftirstöðvum kaupanna. Kominn til landsins á núverandi gengi kostar bíllinn um 16 milljónir króna.

„Það var mikil gleði meðal félagsmanna á föstudaginn þegar við fórum og sóttum bílinn,“ sagði Ármann Ingi Sigurðsson, formaður BFÁ, í samtali við Sunnlenska. „Nú tekur við að standsetja hann, stækka bensíntankinn, setja í hann fjarskipta- og leiðsögutæki og annan búnað. Til að byrja með verður settur á hann pallur en fyrir næsta vetur stefnum við á að það verði búið að smíða hús aftan á hann,“ segir Ármann.

Ármann segir að það hafi háð sveitinni að vera án snjóbíls síðan eldri bíll var seldur til Hólmavíkur árið 2008. Að sama skapi sé gleðilegt að loksins sé kominn öflugur bíll af þessari stærðargráðu á Suðurland. Bíllinn er í grunninn snjótroðari en hann er sérútbúinn að ýmsu leiti til að þjóna sem best sem björgunartæki.

Fyrri greinTölvupóstur veldur uppnámi
Næsta greinJónas á lag ársins