Það er stór dagur fyrir bílaáhugamenn á Selfossi í dag því Bifreiðaklúbbur Suðurlands heldur sinn árlega Bíladelludag í Sigtúnsgarði og stendur sýningin til klukkan 17.
„Hérna eru fornbílar og ýmis fleiri tæki, það eru komin hingað vel á annað hundrað ökutækja,“ sagði Baldur Róbertsson sýningarstjóri í samtali við sunnlenska.is.
„Fornbílaklúbbur Íslands hafði áhuga á því að koma með sitt landsmót hingað en það var ekki pláss fyrir þau hérna í garðinum. Þetta er glæsileg sýning og margt að sjá. Margir athyglisverðir bílar þó að flestir séu spenntastir fyrir að sjá þessa gömlu amerísku,“ bætti Baldur við.
„Selfoss er auðvitað mikill bílabær og stærstur hluti bílanna á sýningunni er héðan. Bíladellan hefur blómstrað hér lengi,“ sagði Baldur að lokum.