Færð fer versnandi á Suðurlandsvegi og í kvöld hafa ökumenn fólksbíla verið að festa bíla sína á Sandskeiði og í Þrengslum.
Hjálparsveit skáta í Hveragerði er á svæðinu og aðstoðar ökumenn. Hálka og skafrenningur er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en annars hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum vegum á Suðurlandi.
Gert er ráð fyrir hríðarveðri um mest allt Suðurland frá því seint í kvöld eða snemma í nótt. Færð spillist fljótt við þessar veðuraðstæður.
Þá er mjög hvasst undir Eyjafjöllum og gert ráð fyrir vindhviðum 30-40 m/s þar til kl. 7 í fyrramálið.
UPPFÆRT kl. 1:34: Hjálparsveit skáta í Hveragerði aðstoðaði ökumenn fimmtán bíla á Suðurlandsvegi.