Þjóðvegur 1 var opnaður aftur laust eftir klukkan 21 í kvöld en hann fór í sundur við Skálmarbrú í jökulhlaupinu í gær. Miklar bílaraðir höfðu myndast beggja vegna lokunarpósta.
Vestanmegin var þjóðvegurinn lokaður við Höfðabrekku og teygði bílaröðin sín alveg inn í þorpið í Vík.
Eftir bráðabirgðaviðgerð á veginum er hann einbreiður austan við Skálm og verður umferð stýrt á staðnum. Byrjað var á að opna fyrir umferð að austanverðu og þegar mesta umferðin er komin yfir verður bílum að vestanverðu hleypt austur yfir. Það gæti tekið um hálftíma.
Vegfarendur eru beðnir um að sína starfsfólki á vettvangi tillitssemi og virða merkingar og fyrirmæli.
Seinna í kvöld verður stefnt að því að virkja ljósastýringu yfir brúna.