Bíldsfellsbændur fengu Landgræðsluverðlaunin

Umhverfisráðherra- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, veitti landgræðsluverðlaunin við hátíðlega athöfn í Gunnarsholti í gær.

Að þessu sinni hlutu verðlaunin þau Árni Þorvaldsson og Sigrún Hlöðversdóttir á Bíldsfelli III í Grafningi, Guðmundur Þorvaldsson og Kristín Guðrún Gísladóttir á Bíldsfelli II og og Hafnarfjarðarbær. Sævar Andri Árnason tók við verðlaununum fyrir hönd foreldra sinna, Árna og Sigrúnar.

Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum. Með þessari viðurkenningu vill Landgræðslan vekja athygli þjóðarinnar á fórnfúsu starfi fjölda þjóðfélagsþegna að landgræðslumálum og jafnframt hvetja aðra til dáða. Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði.
Árni og Sigrún og Guðmundur og Kristín hófu þátttöku í Heimalandaverkefni Landgræðslu ríkisins, sem síðar varð Bændur græða landið, árin 1991 og 1992. Landgræðsla á Bíldsfelli á sér þó mun lengri sögu, eða til áranna upp úr 1960 þegar farið var með húsdýraáburð, moð og annað sem til féll á búinu, í rofabörð í fjallinu og þrjú risastór moldarflög.

Síðar voru fjölskyldudagar haldnir í áraraðir þar sem stórfjölskyldan, 14-30 manns, kom saman til að græða landið. Þá var unnið með höndunum, sáð og borið á brött börð og önnur svæði sem erfitt var að komast um.

Í nokkur ár fengu ábúendur á Bíldsfelli áburðarflugvél Landgræðslunnar, Pál Sveinsson, til að bera á, en með öflugri tækjakosti fóru þeir að nota dráttarvélar sínar við landgræðslustarfið.

Bíldsfellsjörðin hefur gjörbreyst síðustu áratugina. Áður var mikið um rofabörð, og uppi á Bíldsfellinu voru stórir óstöðugir melar og hlíðarnar allar sundur grafnar. Vatnsflaumur var þar niður eftir miklar rigningar og leysingar áður en uppgræðslan hófst. Landgræðslustarfinu hefur verið sinnt af áhuga og kostgæfni og alls hefur verið unnið að landgræðslu á um 360 hekturum. Jörðin er nú að mestu gróin og víða kominn birkiskógur þar sem áður var örfoka land.

„Bændur á Bíldsfelli eru hugsjónamenn í landgræðslu, hugsa fyrst og fremst um að græða landið með það að leiðarljósi að náttúrulegur gróður nái sér á strik frekar en að fá mikinn grasvöxt. Því ná þeir með því að nota litla áburðarskammta til að laða fram náttúruleg gróðurlendi með lyngi, birki og ýmsum blómjurtum,“ segir í greinargerð landgræðsluverðlaununum.

Auk þess að sinna landgræðslu á sinni jörð af stakri prýði, sá Árni um viðamikil landgræðslustörf fyrir aðra bændur í Grafningi í nokkur ár.

Hafnarfjarðarbær
Hafnarfjarðarbær hefur lengi unnið ötullega að landgræðslu og gróðurverndarmálum. Sveitarfélagið kom á sínum tíma upp beitarhólfi á landi sínu í Krýsuvík fyrir sauðfé bæjarbúa. Hafnarfjarðarbær gaf þar öðrum sveitarfélögum gott fordæmi og hvatningu sem varð til þess að með uppsetningu fleiri beitarhólfa náðist það langþráða takmark að banna lausagöngu búfjár á öllum Reykjanesskaga. Með tilkomu beitarhólfanna tókst að friða þúsundir hektara fyrir beit og gera tugi kílómetra af girðingum óþarfar.

Hafnarfjarðarbær hefur einnig lagt áherslu á uppgræðslu utan beitarhólfsins og þá mest með lífrænum áburði. Notað hefur verið hrossatað, svínamykja og hænsnaskítur til að græða örfoka land og árangur verið mjög góður. Í hesthúsahverfinu Hlíðarþúfur í Hafnarfirði er innheimt sérstakt taðþróargjald á hverja stíu í húsi. Gjaldið á að standa undir þeim kostnaði sem fellur til við að hreinsa taðþrærnar, flytja taðið í Krýsuvík og dreifa því þar til uppgræðslu, m.a til að bæta beitiland fyrir hross Hafnfirðinga.

Fyrri greinÖruggt hjá Selfyssingum
Næsta greinHamar úr leik í bikarnum