Rekja má tildrög umferðarslyss nærri Kirkjubæjarklaustri í gær, sem kostaði einn lífið, til þess að ökumaðurinn var að teygja sig eftir einhverju sem lá í gólfinu.
Við það missti hann stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að hann fór nokkrar veltur og farþegi aftur í, sem var ekki í belti, kastaðist út.
Í bílnum voru þrír vinir á þrítugsaldri, tveir karlmenn og ein kona, frá Suður-Kóreu sem voru á ferðalagi um landið. „Sá sem ók bílnum var að teygja sig eftir einhverju sem hann hafði misst í gólfið og lenti út af hægra megin og á stiku. Hann reyndi að komast inn á veginn aftur og tókst það en missti svo aftur stjórn á bílnum og fór út af sömu megin,“ segir Guðmundur Ingi Ingason, varðstjóri hjá lögreglunni á Kirkjubæjarklaustri og Vík, í samtali við mbl.is.
„Bíllinn virðist hafa oltið og endastungist. Farþeginn aftur í var ekki í belti og kastaðist út um hliðarrúðuna og gæti mögulega hafa orðið undir bílnum sem valt áfram 6-7 veltur,“ bætir Guðmundur Ingi við en samferðafólk hins látna hlaut aðeins minniháttar meiðsl. Sjúkrabílar voru sendir á vettvang, auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út, og reyndu sjúkraflutningamenn endurlífgun í töluverðan tíma en talið er að maðurinn hafi hlotið það mikla áverka að hann hafi látist nær samstundis.
Fólkið var flutt á Landspítalann í Fossvogi þar sem það gekkst undir læknisskoðun og fékk áfallahjálp. „Fólkið var þar í gærkvöldi, þegar ég hafði samband, og var í miklu áfalli. Hinn látni og ökumaðurinn voru bestu vinir,“ segir Guðmundur Ingi. Lögreglan var í gær í sambandi við ræðismann Suður-Kóreu og hafði honum í gærkvöldi tekist að ná í alla aðstandendur og greina þeim frá slysinu.
Guðmundur Ingi segir að færðin hafi verið góð í gær og ekkert athugavert við búnað bílsins svo vitað sé en um var að ræða mjög nýlegan bílaleigubíl. „Það er sorglegt að slys verði án þess að nokkur læri af þeim. Bílbelti geta skilið milli lífs og dauða og það tekur aðeins tvær sekúndur að setja þau á sig.“