Lögreglan á Hvolsvelli fékk tilkynningu í síðustu viku um þjófnað á skráningarnúmeri af bifreið.
Í dagbók lögreglunnar kemur fram að það hafi færst í vöxt að skráningarmerkjum sé stolið af bifreiðum. Í mörgum tilfellum eru óprúttnir aðilar að nota skráningarnúmerin á aðrar bifreiðar til að svíkja út eldsneyti.
Í síðustu viku voru 40 mál skráð í dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli. Þrjú minniháttar umferðaróhöpp urðu í umdæminu og í tveimur tilvikum hafði sá sem olli tjóninu ekki numið staðar og tilkynnt um það.
Sjö ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka of hratt. Þeir sem hraðast óku voru á 124 km/klst hraða.