Bilunin í Víkurstreng er líklegast staðsett í strengnum þar sem hann er plægður undir Skógá.
Áin flæddi yfir bakka sína í vatnsveðri og leysingum í nótt og í henni er gífurlega mikið vatn.
Í tilkynningu frá RARIK segir að ólíklegt þyki að vatnsborð árinnar lækki nægilega í dag til að hægt sé að hefja viðgerð.
„Þessi staðsetning er afar erfið og aðstæður hættulegar og mun það tefja viðgerð þar sem ekki þykir forsvaranlegt að senda framkvæmdaflokka til að lagfæra strenginn nærri ánni eða undir brúnni yfir hana. Allir okkar verktakar og starfsfólk á svæðinu er tilbúið að mæta til viðgerðar um leið og færi gefst,“ segir í tilkynningu RARIK.
Ljóst er að keyra þarf varaafl í Vík og Mýrdal í nokkurn tíma. Von er á öflugum varaaflsvélum til Víkur í kringum klukkan 15. Varaflsvél frá RARIK er einnig á leiðinni frá Stöðvarfirði. Minni varaaflsvél RARIK sem staðsett er í Vík er í gangi og svo vel vildi til að færanleg varaaflsvél var þegar staðsett í Vík og hefur verið gangsett. Varatenging frá Klaustri var einnig virkjuð og hefur hún náð að halda rafmagni inni á hluta bæjarins. Enn er hluti Víkur og Mýrdals án rafmagns.