Bílveltur og óhöpp um alla sýslu

Það hefur verið mikið annríki hjá lögreglu og sjúkraflutningamönnum á Selfossi í dag en mikil og lúmsk hálka er á vegum um alla Árnessýslu. Fjórir bílar hafa oltið í sýslunni í dag.

„Það er úðarigning og fólk áttar sig kannski ekki á því fyrr en það stígur á bremsuna að vegirnir eru glerhálir,“ sagði Brynja Sverrisdóttir, varðstjóri í samtali við sunnlenska.is.

Í morgun valt fólksbíll í Kömbunum en í honum voru tveir erlendir ferðamenn og sluppu þeir án meiðsla.

Klukkan 14:20 var tilkynnt um bílveltu á Suðurlandsvegi skammt frá gatnamótum Villingaholtsvegar. Þar fór jeppi útaf í hálku og endaði á hliðinni. Tveir voru í bílnum og sluppu án teljandi meiðsla.

Rúmum tuttugu mínútum síðar fékk lögreglan svo tilkynningu um þriðju bílveltuna á Gjábakkvegi, skammt frá Þingvallavegi. Þar voru einnig erlendir ferðamenn á ferðinni og voru þeir ekki taldir alvarlega slasaðir.

Fjórða bílveltan varð svo um klukkan fimm við Reykholt í Biskupstungum.

Auk þessara óhappa varð harður árekstur á mótum Eyravegar og Engjavegar á Selfossi um hádegi í dag þar sem draga þurfti annan bílinn á brott. Þá þurftu lögregla og sjúkraflutningamenn að sinna óhappi á Flúðum eftir hádegi í dag.

Það hefur því verið meira en nóg að gera hjá lögreglumönnunum þremur sem eru á vakt í Árnessýslu í dag.

UPPFÆRT KL. 18:10

Fyrri greinFimm ættliðir komu saman
Næsta greinSelfoss skoraði 44 mörk á Ísafirði