
Verslun Pennans á Selfossi mun flytja í nýtt hús við Larsenstræti um mánaðamótin maí-júní. Verslunin hefur verið staðsett í Brúarstræti í miðbæ Selfoss síðan hún opnaði í júlí 2023.
„Við verðum í verslunarhverfi með Bónus, Lindex, Vínbúðinni, Byko, Húsasmiðjunni og fleiri aðilum. Við bindum miklar vonir við þessa staðsetningu, ásamt því að verslunin stækkar úr 100 fm í 350 fm sem þýðir stóraukið vöruval,“ segir Ingimar Jónsson, forstjóri Pennans, í samtali við sunnlenska.is.
„Verslun okkar á Selfossi hefur fengið mjög góðar viðtökur síðan hún opnaði en við erum í dag í allt of litlu húsnæði sem hefur sett okkur verulegar skorður. Við erum bjartsýn á Selfoss og Suðurlandið allt og teljum okkur eiga erindi á þessu svæði til framtíðar enda svæðið í miklum vexti,“ segir Ingimar ennfremur.
Auk þess að opna nýja verslun á Selfossi mun Penninn opna verslun í Vík í Mýrdal síðar á þessu ári eða í byrjun þess næsta í nýju verslunarhúsnæði sem verið er að byggja. Það verður níunda verslun Pennans á landsbyggðinni ef verslunin í Leifsstöð er talin með en auk þess rekur Penninn sjö verslanir á höfuðborgarsvæðinu.