Bíóhúsið á Selfossi er að fá mikla andlitslyftingu þessa dagana en verið að að skipta um sæti í báðum sölum bíósins.
„Við þurftum að loka vegna samkomutakmarkana þann 23. mars síðastliðinn og ákváðum að nota þennan tíma til þess að taka húsnæðið allt í gegn. Reyndar vorum við búnir að áætla að gera þetta, panta sætin og fleira áður en öllu var lokað þannig að þessi lokun kom sér ágætlega, því að þá gátum við gefið okkur góðan tíma í allar þessar breytingar,“ segir Marinó Lilliendahl í samtali við sunnlenska.is.
Nýju sætin eru sérhönnuð gæðasæti svo að mjög vel mun fara um bíógesti í framtíðinni. Einnig er búið að mála veggi, laga lýsingu og bóna öll gólf og flikka upp á innganginn í húsið. En hvenær á að opna aftur?
„Við munum opna fljótlega í júlí og vonandi fáum við svo nýjar myndir inn fljótlega. Það var flott sýningarplan framundan í vor, ný Marvelmynd og ný James Bond mynd auk flottra teiknimynda sem framleiðendur frestuðu að frumsýna, en það er von á flottum myndum inn fljótlega. Amma Hófí, sem er ný íslensk mynd er frumsýnd í júlí og myndirnar sem voru áætlaðar í frumsýningu í vor munu koma inn ein af annarri í haust. Fram að því munum við sýna eldri klassískar myndir í sumar, í bland við það efni sem kemur nýtt inn,“ segir Marinó ennfremur.