Birgir Þórarinsson, oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi, hefur sagt skilið við Miðflokkinn og gengið til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því fjóra þingmenn í Suðurkjördæmi en Miðflokkurinn engan.
Birgir ritar grein í Morgunblaðið í dag um vistaskiptin.
Hann segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi ráðfært sig við trúnaðarmenn Miðflokksins í Suðurkjördæmi áður en hann lét af því verða að ganga til liðs við sjálfstæðismenn. Þar á meðal við Ernu Bjarnadóttur, 2. mann á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi og varamann sinn á þingi, sem einnig færir sig um set, taki hún sæti á þingi.
Klausturmálið var kveikjan
Vistaskipti Birgis eiga sér nokkurn aðdraganda, þótt atburðarásin hafi verið hröð í þessari viku. Að sögn Birgis má rekja þau allt aftur til uppákomunnar á Klaustri um árið, en hann fordæmdi hana. Hann kveðst hafa vonað að um heilt hefði gróið síðan, en annað hafi komið í ljós. Hann hafi því að vandlega yfirveguðu ráði ákveðið að hann gæti ekki átt samleið með hinum þingmönnum Miðflokksins lengur.