Birta er hönnuður framtíðarinnar

Birta Ísólfsdóttir frá Hvolsvelli stóð uppi sem sigurvegari í hönnunarþætti Stöðvar 2 og 66°Norður, Hannað fyrir Ísland, en úrslitaþátturinn var sýndur í gærkvöldi.

Farið var með keppendur í ýmsar þær aðstæður sem útivistarfatnaður 66°Norður er notaður m.a. annars upp á hálendið, á sjó þar sem ungir framtíðarhönnuðir Íslands lentu í frekar slæmu veðri, en leikurinn varð gerður til þess að keppendur gætu áttað sig á notagildi og styrk fatnaðarins, við þær aðstæður sem hann er hannaður fyrir. Þar reyndi því á hæfileika til útfærslu á allskyns útivistarflíkum alveg frá hugmynd til frumgerðar. Flíkurnar þurftu að standast nýjustu tískustrauma, útlit og notagildi við krefjandi aðstæður.

Níu hönnuðir hófu keppnina og féll einn keppandi úr í hverjum þætti þar til þrír hönnuðir stóðu eftir í lokaþættinum, í verðlaun voru meðal annars ein milljón króna ásamt föstu starfi hjá 66°Norður.

Birta tók á móti blaðamanni sunnlenska.is í dag, brosandi og hress í höfuðstöðvum 66°Norður þar sem hún hefur þegar hafið störf.

Hún segir það hafa komið sér á óvart hversu flókinn útivistarfatnaður er, flókin tækni í efnum og mikil hugsun sé á bak við hverja flík. Það var greinilegt að Birta er mjög spennt að takast á við útivistarfatnaðinn.

Aðspurð segist Birta hafa verið ung þegar hún ákvað að verða fatahönnuður. Hún lærði barnung að sauma, prjóna og hekla, hannaði fatnað á dúkkurnar sínar og síðar á sjálfa sig. Hún segir hátísku Parísar ekki heilla sig en svaraði því til að hún hefði meiri áhuga á götufatnaði og nú á útivistarfatnaðurinn hug hennar allan.

Birta hóf nám á myndlistar- og fataiðnbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti og lauk svo námi í fatahönnun í Listaháskóla Íslands árið 2010.

Fyrri greinBáðum Selfossliðunum spáð niður
Næsta greinEvíta gjafavörur opnar á Selfossi