Byggðaráð Rangárþings eystra tekur vel í hugmyndir Bjargs íbúðafélags um samstarf um uppbyggingu leiguíbúða á Hvolsvelli í raðhúsi við Hallgerðartún á Hvolsvelli.
Bjarg er húsnæðissjálfseignarstofnun, stofnuð af ASÍ og BSRB, og er félaginu ætlað að tryggja tekjulágum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Á síðustu misserum hefur Bjarg byggt tvö fjölbýlishús á Selfossi, eitt í Þorlákshöfn auk þess sem raðhús er í smíðum í Hveragerði.
Á síðasta fundi sínum fól byggðaráð sveitarstjóra að vinna að viljayfirlýsingu við Bjarg um úthlutun lóðarinnar og byggingu raðhúss á henni. Þá hefur byggðaráð óskað eftir að fá forsvarsmenn Bjargs til fundar til þess að kynna verkefnið.