Bjarkey sigraði í ritlistarsamkeppni

Bjarkey Sigurðardóttir, ljóðskáld og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Bjarkey Sigurðardóttir, nemandi í leikskólanum Jötunheimum á Selfossi, bar sigur úr býtum í ritlistarsamkeppninni Að yrkja á íslensku sem Kennarasambandið efndi til í tilefni Dags leikskólans.

Bjarkey fékk verðlaunin afhent á degi leikskólans, þann 6. febrúar síðastliðinn, en hún tók við viðurkenningunni úr hendi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á samkomu í leikskólanum Brákarborg í Reykjavík.

Verðlaunaljóð Bjarkeyjar ber titilinn Sumar og hljóðar svo:

Sumar
Sumar er sólblítt,

gaman er þá.
Að dansa í sumarkjólnum
og borða snakk.

Í umsögn dómnefndar segir að þarna sé á ferðinni „haglega samið ljóð í ætt við ferskeytlu að formi og fjallar um þá tilfinningu þegar sumarið hellist yfir mann af fullum þunga. Orðið „sólblítt“ er ljóðrænt og sérstaklega skemmtilegt og bendir til myndrænnar og skapandi hugsunar ljóðskáldsins.“

Kennarasamband Íslands efndi til keppninnar meðal leikskólabarna í tilefni dags leikskólans. Verkefnið var að yrkja á íslensku; á hvaða formi sem er og efnistök voru frjáls. Vel á annað hundrað ljóð, textar og sögur bárust frá leikskólabörnum og veitt voru þrenn verðlaun í keppninni.

Fyrri greinBókasafnið og Skema bjóða börnum í Scratch
Næsta greinMilljarður rís – Dansveisla í Iðu