Bjarni Jónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Votlendissjóðs. Hann hefur starfað síðustu 10 árin sem framkvæmdastjóri félagasamtaka nú síðast fyrir Siðmennt og áður fyrir garðyrkjubændur.
Votlendissjóðurinn hefur það hlutverk að vinna að endurheimt votlendis í samstarfi við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagssamtök og einstaklinga. Fjölmargir sérfræðingar eru í baklandinu og veita sérfræðiráðgjöf eins og Landgræðslan, Landbúnaðarháskólinn, Fuglavernd, Rannsóknarsetur HÍ á Suðurlandi og Náttúrstofurnar, Náttúrufræðistofnun, PWC, Vegagerðin, Háskóli Íslands ofl.
Markmið Votlendissjóðs er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda úr náttúru Íslands með endurheimt votlendis. Hlutverk hans er að efla samstarf við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagssamtök og einstaklinga. Sjóðurinn er ekki rekinn í hagnaðarskyni.
Í tilkynningu frá sjóðnum segir að endurheimt votlendis sé afar mikilvægur þáttur í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda til þess að ná markmiðum sem Íslandi hefur sett sér fyrir árið 2030. Með þeim nást markmið Sameinuðu þjóðanna að draga úr hlýnun jarðar.