Hjónin Eggert Valur Guðmundsson og Eygló Har Sigríðardóttir hafa tekið við verslunarrekstri á Eyrarbakka en þau opnuðu Verslunina Bakkann þar á dögunum.
Þau segjast bjartsýn á reksturinn og þegar tækifærið hafi gefist þá ákváðu þau að stökkva til. „Þetta er fimmhundruð manna þorp og ég trúi ekki öðru en það sé mögulegt að reka hér verslun. Viðtökurnar hafa verið frábærar frá því við opnuðum og við heyrum að það er almenn ánægja með þetta meðal íbúanna,“ sagði Eggert Valur í samtali við sunnlenska.is.
Rúmur mánuður er síðan verslunin Vesturbúð lokaði í þessu sama húsnæði en húsið er í eigu Olís sem leigir út reksturinn. Í versluninni má kaupa allar helstu nauðsynjavörur fyrir heimilið og bílavörur frá Olís.
Þau Eggert og Eygló hafa verið að dytta að húsinu síðustu daga en þau segja að litlar breytingar verði á rekstrinum í fyrstu. „Við viljum sjá hvernig þetta fer af stað, það má segja að þetta sé tilraunaverkefni en við stefnum þó á einhverjar breytingar í framtíðinni, t.d. viljum við geta boðið upp á grillaða hamborgara og ís úr vél.“