Það var líf og fjör í Hrunaréttum í morgun á einum af hátíðisdögunum í sveitinni. Margmenni var í réttunum, en þó ekki fleira fólk en fé.
Safnið hjá Hrunamönnum telur um 4.500 fjár að þessu sinni og að sögn Þorsteins Loftssonar, bónda í Haukholtum og kóngs í austurleit gekk fjallferðin vel enda fengu menn og konur gott veður og féð var mikið runnið fram, þannig að ekki þurfti að sækja stóran hluta af safninu langt upp á hálendið.
Réttardagurinn sjálfur var bjartur og fagur og ekki féll dropi úr lofti svo menn þurftu að vökva sig með öðrum leiðum áður en söngur hófst í almenningnum.