Norska fyrirtækið Bliksund hefur gert samning við íslenska fyrirtækið Vertical vöxtur um sölu og þjónustu á stafrænum kerfum fyrir viðbragðsaðila á Íslandi.
Bliksund er leiðandi framleiðandi hugbúnaðarlausna fyrir neyðar- og heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum og hefur fyrirtækið þróað stafrænar lausnir sem geta stutt við þróun íslenskra viðbragðsaðila á samræmingu sín á milli.
„Hugbúnaður Bliksund mun veita íslensku neyðarþjónustunni stjórn, innsýn og yfirsýn á daglegum rekstri og vettvangi aðgerða. Með því að sameina nýstárlegar lausnir þeirra og reynslu við staðbundna þekkingu okkar höfum við metnað til að koma lausnum Bliksunds út til neyðar- og heilbrigðisstarfsmanna á Íslandi,“ segir Haukur Grönli, framkvæmdastjóri Vertical vöxts.
Bliksund og Vertical vöxtur bjóða viðbragðsaðilum tilbúin kerfi fyrir neyðarsvörun, sjúkraflutninga, slökkvilið, lögreglu, landhelgisgæslu, hjálparsveitir og Rauða krossinn svo fátt eitt sé nefnt. Öll kerfi eru þróuð í nánu samstarfi við heilbrigðis- og viðbragðsaðila í Noregi.
Íslendingar í fararbroddi í stafrænum lausnum
Janne T. Morstøl, framkvæmdastjóri Bliksund, segir að Ísland leggi metnað sinn í að bjóða upp á nýjungar í stafrænum lausnum og hafi þar verið í fararbroddi á ýmsum sviðum.
„Til að viðbragðs- og neyðarþjónusta geti sinnt störfum sínum enn betur og af enn meiri fagmennsku þá eru stafrænar lausnir grunnur að því og við teljum að við séum með það verkfæri. Við hlökkum til samstarfsins við Vertical vöxt og vinna saman að því að gera stafræna umbreytingu í neyðarþjónustu á Íslandi,“ segir Janne.
Reynsluboltar bakvið Vertical vöxt
Fyrirtækið Vertical vöxtur var stofnað á Selfossi í fyrra af Hauki Grönli og konu hans Rakel Ásgeirsdóttur. Vertical vöxtur er ráðgjafarfyrirtæki með áherslu á fyrirlestra og kennslu.
Haukur hefur í rúma tvo áratugi starfað sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður á Íslandi, í Afganistan, Noregi og Malaví. Rakel, sem er menntuð hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, starfar nú sem ljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands en hún hefur einnig starfað á bráðamóttöku á Íslandi og sem ljósmóðir í Noregi og Malaví. Meðeigandi þeirra er Gná Guðjónsdóttir, sem hefur einnig víðtæka reynslu úr neyðarþjónustunni og starfaði sem almennur lögreglumaður og lögreglufulltrúi í meira en 15 ár.