Björgunarfélag Árborgar var kallað út í dag til að bjarga kind sem féll ofan í 15-20 metra djúpa gjá í sumarbústaðalandi við Kárastaði á Þingvöllum.
Vitni voru að því þegar kindin féll í gjána sem var botnfull af djúpu vatni. Kindin náði að krafla sig upp á syllu en þegar björgunarsveitarmenn sigu niður í gjána stökk kindin til sunds og svamlaði inneftir gjánni. Einn björgunarmannanna þurfti því að synda á eftir kindinni og var hún handsömuð og færð aftur upp á sylluna.
“Þar bundum við í hana og hífðum hana uppúr. Hún var ótrúlega vel á sig komin og hljóp aftur til lambanna sinna þegar hún var komin upp. Það var greinilegt á ummerkjum að hún hafði lamist utan í veggina á gjánni en hún var samt hin hressasta og frelsinu fegin,” sagði Björgvin Óli Ingvarsson, einn björgunarsveitarmanna, í samtali við sunnlenska.is.
Fimm björgunarsveitarmenn sinntu útkallinu sem barst laust eftir kl. 14 í dag og var kindin komin uppúr gjánni rúmum einum og hálfum tíma síðar.
sunnlenska.is/Þórunn Ásta Helgadóttir