Björgunarsveitir frá Álftaveri, Skaftártungu og Vík í Mýrdal voru kallaðar út síðdegis í dag til aðstoðar rjúpnaskyttu sem var í sjálfheldu í klettum norðan megin í Rjúpnafelli, austan Mýrdalsjökuls.
Maðurinn var á veiðum með félaga sínum en sá var staddur nokkru neðar í fellinu og þegar honum varð ljóst að aðstoð hans dygði ekki til hringdi hann eftir aðstoð björgunarsveita.
Veðrið á svæðinu var þokkalegt og komst skyttan niður heil á húfi með aðstoð björgunarsveitarmannanna.
Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að sjálfhelda í fjöllum og klettum sé ekkert gamanmál. Þegar fólk lendir í einni slíkri þurfa björgunarmenn oftar en ekki að nálgast það ofan frá, þ.e. fara ofar í fjallið og síga niður að því. Krefst það töluverðrar línuvinnu og traustra festinga. Því þarf yfirleitt nokkurn mannskap í slík verk.