Félagar úr Björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík björguðu seint í nótt tveimur örmagna ferðamönnum sem höfðu lent í sjálfheldu milli Landmannalauga og Hrafntinnuskers.
Eftir mikið álag að undanförnu í tengslum við eldgosið fóru félagar úr Þorbirni í vikulangt „frí“ upp á hálendi til þess að sinna hálendisvakt björgunarsveitanna, eins og það er orðað í Facebookfærslu sveitarinnar. Vaktin á hálendinu var reyndar ákveðin löngu áður en byrjaði að gjósa.
Um klukkan 21 í gærkvöldi fékk sveitin aðstoðarbeiðni frá ferðamönnunum og var strax ákveðið að sækja úr mörgum áttum þar sem stutt var í myrkur. Vel gekk að finna fólkið og koma þeim til bjargar og voru allir komnir niður í Landmannalaugar um klukkan 4 í nótt við þokkalega góða heilsu.