Erlendi ferðamaðurinn sem slasaði sig í Reykjadal síðdegis í gær komst í hendur sjúkraflutningamanna um kl. 19 í gærkvöldi og var færður á slysadeild í Reykjavík.
Maðurinn hafði fallið við snjóbrettaiðkun og fann hann til í baki og fæti. Réttast þótti að flytja hann með gát og því var hann dreginn í björgunarkörfu niður Reykjadalinn og í sjúkrabíl sem beið hans á bílastæðinu neðst í dalnum.
Nokkurn fjölda björgunarmanna þurfti til verkefnisins en auk sveita af Suðurlandi aðstoðuðu sveitir af höfuðborgarsvæðinu við flutninginn sem tók alls hátt í þrjár klukkustundir og gekk vel.