Björgunarsveitir frá Höfn í Hornafirði og Öræfum voru kallaðar út klukkan hálf ellefu í morgun vegna slasaðrar konu í Fremri-Veðurárdal austan við Breiðamerkurjökul.
Konan var á göngu með hóp að íshelli í Breiðamerkurjökli þegar hún hrasaði á blautri klöpp og slasaðist á fæti.
Þjóðgarðsverðir eru rétt ókomnir á vettvang og stutt er í sjúkraflutningamenn í samfloti við björgunarsveitarfólk. Mikið hefur rignt á svæðinu og mikið vatn er í ám og lækjum. Bera þarf konuna að björgunarsveitarbíl við nokkuð erfiðar aðstæður.