Björgunarmiðstöðin bíður þar til allar tölur liggja fyrir

Kostnaðaráætlun vegna frágangs á Björgunarmiðstöð Árborgar, sem lá fyrir við kaup sveitarfélagsins á húsinu, var ekki raunhæf.

Framkvæmda- og veitustjórn Árborgar mun láta vinna útboðsgögn vegna lokafrágangs á Björgunar­miðstöð Árborgar og bjóða verkið svo út í heild sinni.
„Við ætlum að reyna að drífa þetta í gegn en þetta gæti seinkað því að húsið verði tekið í notkun,“ sagði Elfa Dögg Þórðardóttir, for­maður framkvæmda og veitustjórnar í samtali við Sunnlenska. „Hins vegar gæti þetta munað milljónum fyrir okkur í kostnað með því að bjóða út heildarpakkann. Áður auglýstu útboði á malbikun hefur verið frestað og við munum ekki fara af stað fyrr en allar tölur eru á hreinu varðandi frágang á húsinu. Við höfum ekki efni á öðru,“ segir Elfa Dögg.
Til stóð að taka Björgunarmiðstöðina í gagnið þann 1. desember nk.
Samkvæmt heimildum Sunnlenska gerði kostnaðaráætlun ráð fyrir að það kostaði um 45 milljónir að ljúka við frágang á húsinu. Inn í þá áætlun hafi hins vegar vantað vatnsúðarakerfi og fleiri kostnaðarsama liði.
Fyrri greinTap á Akureyri
Næsta greinVirkjunaráform í Grændal líklega úr sögunni