Björgunarsveit til taks ef þörf er á sjúkraflutningum

Allar björgunarsveitir í Árnessýslu hafa verið kallaðar út til ýmissa verkefna auk þess sem svæðisstjórn hefur verið virkjuð.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að mikið álag sé á björgunarsveitum á suðvesturhorninu en sé fjöldi þeirra sem þurfa aðstoð mælikvarðinn hefur ástandið verið einna verst hér fyrir austan fjall og í uppsveitum Árnessýslu.

Að sögn Viðars Arasonar, hjá svæðisstjórn björgunarsveita, er mjög mikið af föstum bílum um alla sýsluna. Á Hellisheiði, í Þrengslum og á Lyngdalsheiði hefur fjöldi bifreiða setið fastur eða verið ekið út af vegi. Á leið til og frá Gullfossi, Geysi og á Þingvöllum er vel á annað hundrað bíla fastur. Vel hefur gengið að aðstoða ferðafólkið.

Þá hefur Vindur 1, Econoline bifreið frá Björgunarfélaginu Eyvindi á Flúðum, verið sendur á Selfoss. Bíllinn er útbúinn sjúkrabörum og er hægt að nota hann sem sjúkrabíl ef flytja þarf sjúklinga yfir Hellisheiði.

UPPFÆRT KL. 18:34

Fyrri greinÁtta til tíu bíla árekstur við Litlu kaffistofuna
Næsta greinBúið að opna Hellisheiði