Snjóflóð féll í Móskarðshnúkum í Esjunni í hádeginu í dag og er talið að tveir menn hafi lent í flóðinu.
Allar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðar út auk þyrlu og fleiri viðbragðsaðila en meðal þeirra sem hafa verið kallaðir út eru undanfarar björgunarsveitanna í Árnessýslu á hæsta forgangi.
„Við erum að senda allt viðbragð sem við getum sent á vettvang,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við RÚV.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu er um lítið flóð að ræða en á svæðinu eru vinsælar gönguleiðir.