Tveir bílar fuku útaf í umdæmi Selfosslögreglunnar í óveðrinu eftir hádegi í dag, annar við Hjalla í Ölfusi og hinn við Borg í Grímsnesi. Björgunarsveitarmenn komu til aðstoðar í þessum tilvikum.
Um hádegi var óskað eftir aðstoð í Hveragerði vegna þakkants sem var að losna af húsi og fóru björgunarsveitarmenn á vettvang. Einnig sinntu björgunarsveitir ófærðaraðstoð og því að manna lokunarpósta við Hellisheiði og Þrengsli.
Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á Selfossi, hefur umferð á svæðinu verið lítil í dag og fólk heldur sig innanhúss. Sjálfur var hann að koma á Selfoss frá Hvolsvelli og voru aðstæður slæmar frá Landvegamótum að Skeiðavegamótum, mjög hvasst og lélegt skyggni.