Allar björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út kl. 19 í kvöld vegna yfirvofandi flóðs í Markarfljóti.
Sveitirnar voru látnar bíða í viðbragðsstöðu við Landvegamót en klukkan rúmlega níu var beiðnin afturkölluð og björgunarsveitarmenn héldu aftur heim á leið.
Að sögn Jóhannesar Geirs Sigurjónssonar, björgunarsveitarmanns í Tintron í Grímsnesi, voru tæplega 100 björgunarsveitarmenn sem biðu við Landvegamót. Meðal annars voru þar björgunarsveitarmenn frá Akranesi með brynvarinn bíl sem áfram verður á svæðinu.