Björgunarsveitir enn í útköllum

Talsvert tjón varð á Hótel Selfossi þar sem þakdúkur fauk af þaki nýrri byggingarinnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Björgunarsveitir á Selfossi og Eyrarbakka eru ennþá að sinna óveðursútköllum.

Í morgun var gengið frá foktjóni á þaki sem ekki var hægt að sinna í nótt vegna veðurs og einnig hafa björgunarsveitarmenn sagað niður tré sem voru farin að halla.

Ennþá eru ferðamenn í skjóli í fjöldahjálparstöðinni á Borg í Grímsnesi og er verið að aðstoða fólkið sem dvaldi þar í nótt við að komast leiðar sinnar.

Aðgerðarstjórn í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi er enn virk og verður þangað til yfirlýstu óvissustigi lýkur.

Búið er að opna Hellisheiði og Þrengsli og strætóleiðir á Suðurlandi eru byrjaðar að aka skv. áætlun.

Víða í úthverfum Selfoss má sjá ruslatunnur á flakki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Klæðningar fuku af nokkrum húsum á Selfossi, meðal annars við Austurveginn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Nokkrir bílar fuku útaf veginum við Suðurhóla á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Gámur á golfvellinum á Svarfhóli fauk eina 40 metra og endaði á hliðinni. Ljósmynd/GOS
Fyrri greinSelfyssingar hvattir til að spara heita vatnið
Næsta greinSex sóttu um í Þorlákshöfn