Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, færði í dag fulltrúum þrettán björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar nýjar færanlegar rafstöðvar við athöfn í húsakynnum Neyðarlínunnar á Hólmsheiði.
Meðal þeirra sveita sem fengu rafstöðvar í dag voru Björgunarfélag Árborgar, Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli, Björgunarsveitin Kári í Skaftafelli og Björgunarfélag Hornafjarðar. Áður höfðu Björgunarsveitirnar Kyndill og Stjarnan í Skaftárhreppi fengið færanlegar rafstöðvar.
Björgunarsveitir Landsbjargar fá allt í allt rúmlega 30 nýjar færanlegar rafstöðvar á þessu ári. Tilgangurinn er að efla rekstraröryggi í fjarskiptum þegar óveður geysa eða hamfarir verða og tryggja eins og kostur er að hægt verði að hringja eftir aðstoð í neyð og kalla út viðbragðsaðila. Með því að fjölga færanlegum rafstöðvum og staðsetja hjá björgunarsveitum verður hægara að koma rafmagni aftur á þar sem þörf krefur og bæta þannig lífsgæði fólks. Meðal þeirra sveita sem fá færanlega rafstöð í næsta áfanga er Björgunarsveitin Víkverji í Mýrdal.
Stórefla öryggi í fjarskiptum
„Færanlegar rafstöðvar munu þétta öryggisnet fjarskipta um land allt. Afhending þeirra er liður í stærra átaki við að stórefla öryggi í fjarskiptum. Við viljum tryggja sem best að ef fárviðri geisar eða hamfarir verða sé til staðar varaafl og nægt rafmagn. Með sameiginlegu átaki Neyðarlínunnar, Mílu og fjarskiptafyrirtækja á síðasta ári hefur grettistaki verið lyft við að bæta varaafl á fjarskiptastöðvum. Núna færum við björgunarsveitunum mikilvægan tækjabúnað til að koma rafmagni aftur á við erfiðar aðstæður. Engum er betur treystandi til þess að taka þetta verkefni að sér en sjálfboðaliðum og starfsfólki hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg,“ segir Sigurður Ingi.
Ráðherrann kynnti í fyrravor að verkefnið fengi 275,5 milljóna króna fjárveitingu árið 2020 á vegum fjarskiptasjóðs. Fjárveitingin var veitt á grundvelli fjárfestingaátaks stjórnvalda til að sporna jafnframt gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins.