Björgunarsveitir í Hveragerði og á Selfossi voru kallaðar út í morgun þar sem þakplötur voru að losna af nokkrum húsum.
Nóttin var róleg framan af en hálf fimm í morgun barst fyrsta útkallið á Selfossi vegna foks.
Uppúr klukkan 6 fór að hvessa verulega og hefur nærri tugur óveðursútkalla borist í Hveragerði og á Selfossi. Ekki hefur orðið stórtjón neinsstaðar en þakkantar rennur og ruslatunnur losnuðu á nokkrum stöðum.
Búist er við stormi á Suðurlandi með morgninum og verða mjög hvassir vindstrengir sunnan fjalla. Það versta ætti þó að vera yfirstaðið uppúr klukkan 9.
Mjög hvasst er undir Ingólfsfjalli og hafa hviður slegið í 40 m/sek. Lögreglan segir varasamt fyrir stærri bíla og bíla með kerrur eða tengivagna að vera á ferðinni þar.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er mjög slæmt veður um mestallt land. Það er óveður undir Eyjafjöllum og í Þrengslum. Vegir eru auðir á Suðurlandi.