Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út vegna ferðamanns, sem er í vanda staddur á Vatnajökli. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg barst tilkynning frá honum rétt fyrir kl. 19, en maðurinn mun vera með laskaðan búnað á göngu sinni um jökulinn og átti af þeim sökum í vandræðum með að koma sér fyrir til næturgistingar.
mbl.is greinir frá þessu.
Veður er ekki gott og fer versnandi. Björgunarsveitir af Suðurlandi leita nú að manninum og leggja á suðvesturhorn Vatnajökuls úr tveimur áttum, en björgunarsveitir hafa einungis grófa hugmynd um staðsetningu mannsins.
Auk sveitanna af Suðurlandi og frá Höfn hefur verið óskað eftir því að snjóbílar björgunarsveita úr Reykjavík verði til taks.