Hellisheiði og Þrengsli eru lokuð og hafa verið það síðan seint í gærkvöldi. Björgunarsveitir í Hveragerði, Þorlákshöfn, á Eyrarbakkaa og Selfossi voru kallaðar út á aðfangadagskvöld til þess að aðstoða ökumenn í vandræðum þar.
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðurlandi til klukkan 18 í dag en þá tekur við gul viðvörun til klukkan 6 í fyrramálið.
Það gengur á með dimmum éljum og í verstu hryðjunum er ekkert skyggni og mjög varasöm akstursskilyrði. Lokað er yfir Hellisheiði og Þrengsli og á Sandskeiði og verða þessir vegir líklega ekki opnaðir í dag samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Þungfært er á Lyngdalsheiði og vegurinn um Reynisfjall er á óvissustigi og gæti lokast án fyrirvara.