Rétt fyrir klukkan 15 í dag barst hjálparbeiðni frá hópi fólks sem var að ganga yfir Vatnajökul á gönguskíðum. Kona í hópnum hafði fallið og fengið farangurssleða sem hún dró á eftir sér í höfuðið.
Ljóst var í upphafi að sækja þyrfti á jökulinn úr tveimur áttum og var útkallið strax stækkað, það nær nú til björgunarsveita frá Hvolsvelli og austur á Höfn í Hornafirði. Hópur að austan hélt upp Skálafellsjökul og lagði á jökul á vélsleðum, breytum bílum og snjóbíl. Að vestan hélt björgunarfólk inn að Jökulheimum til að leggja þaðan á snjóbíl og breyttum bílum.
Hópur björgunarfólks á vélsleðum sem fór upp Skálafellsjökul er nú komið að Grímsfjalli og leitar hópsins. Skyggni þar er afar lélegt og erfið skilyrði. Fólkið var ekki þar sem áætluð staðsetning þeirra var, og eru sleðahópar nú að leita svæðið þar í kring.
Björgunarbílar að austan eru á jökli en eiga lengra í Grímsfjall. Björgunarfólk sem hélt á jökul að vestan er nú að leggja á jökul.
Ástand konunnar, þegar síðast var samband við hópinn, var stöðugt, en ljóst er að flytja þarf hana niður af jökli í bíl eða snjóbíl.
Uppfært kl. 19:38: Nú hafa björgunarsveitir af höfuðborgarsvæðinu og Austfjörðum einnig verið kallaðar út vegna leitar. Veðurútlit er slæmt og þar sem fólkið fannst ekki þar sem talið var að það væri hefur verið bætt verulega í bjargir. Á leitarsvæðinu er nú þreifandi bylur.
Uppfært kl. 00:10: Hópurinn fannst fyrir tæpum hálftíma, um klukkan 23:45. Verið er að búa um hina slösuðu og undirbúa flutning niður af jökli.