Lögreglan á Suðurlandi segir að björgunarsveitirnar á Suðurlandi og stór-Reykjavíkursvæðinu, ásamt mokstursmönnum Vegagerðarinnar, hafi unnið þrekvirki í gær, við að koma fólki leiðar sinnar í mikilli ófærð í uppsveitum Árnessýslu.
Um miðnætti í gærkvöldi fékk bílalest fylgdarakstur niður Biskupstungnabraut en bílarnir höfðu setið fastir til móts við Torfastaði frá því fyrr um kvöldið. Senda þurfti veghefil frá Selfossi til aðstoðar þar sem snjómagnið var orðið það mikið að hefðbundnir mokstursbílar réðu ekki við að ryðja leiðina.
Fjöldahjálparstöð var opnuð í Aratungu og á Selfossi og beið fólkið á Selfossi þangað til Þrengslavegur var opnaður.
Á annað hundrað björgunarsveitarmanna í þrjátíu hópum unnu að björgunaraðgerðunum. Ekki gekk allt þrautalaust fyrir sig. Þannig biluðu bæði moksturstæki og björgunartæki sem þurfti að skilja eftir á vettvangi.
Lögreglan á Suðurlandi færir björgunarsveitum og viðbragðsaðilum öllum innilegar þakkir fyrir óeigingjarnt starf.