Björgunarsveitir í Árnessýslu fengu töluvert af verkefnum í óveðrinu í dag. Vestanátt var á Suðurlandi og víða lítið skjól fyrir henni. Ekki er algengt að svo hressilega blási að vestan og því fengu björgunarsveitirnar „ný“ verkefni til þess að glíma við.
Að sögn Viðars Arasonar, formanns svæðisstjórnar björgunarsveita í Árnessýslu, var nokkuð um að þakflasningar og þakplötur væru að losna.
„Stærsta verkefnið á Selfossi var á Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem losnaði klæðning á húsi. Brunavarnir Árnessýslu og Björgunarfélag Árborgar fóru í það verkefni en tjónið reyndist minniháttar. Önnur verkefni á Selfossi voru helst ruslatunnur og annað lauslegt sem var að fjúka í vestanáttinn,“ segir Viðar og bætir við að einnig hafi orðið minniháttar foktjón í Þorlákshöfn, á Eyrarbakka og Flúðum.
„Í Hveragerði og Ölfusi var töluvert um útköll vegna foks en þar losnaði meðal annars þakklæðing á tveggja hæða fjölbýlishúsi. Vegna aðstæðna á vettvangi var óskað eftir aðstoð Brunavarna Árnesýslu sem kom á staðinn með körfubíl til að auðvelda vinnuna við að negla niður þakið og koma í veg fyrir frekara tjón,“ segir Viðar ennfremur.
Vegagerðin lokaði Hellisheiði og Þrengslum í skamman tíma á sjöunda tímanum í kvöld. Ekki er vitað um alvarleg óhöpp á vegum úti en björgunarsveitir voru á ferðinni um allt Suðurland, auk Árnessýslu er sunnlenska.is kunnugt um útköll í Rangárþingi ytra og í Mýrdalnum.