Snarpur hvellur gekk yfir Suðurland í morgun með tilheyrandi hvassviðri og skafrenningi. Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna ófærðar en skafrenningurinn olli því að færð spilltist hratt víða.
Flestar aðalleiðir voru lokaðar í morgun en búið er að opna Eyrarbakkaveg, Þorlákshafnarveg og Suðurlandsveg milli Selfoss og Hellu. Hellisheiði, Þrengsli, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði og Suðurstrandarvegur eru enn lokuð en staðan verður tekin í hádeginu.
Björgunarsveitafólk kom starfsfólki heilbrigðisstofnana til aðstoðar við að komast til vinnu og fylgdi sjúkrabíl í útkall vegna veikinda. Hvellinum fylgdi töluvert af aðstoðarbeiðnum vegna ófærðar á stuttum tíma og kom björgunarsveitafólk rúmlega 20 manns til aðstoðar. Í einhverjum tilfellum var hægt að losa fasta bíla en öðrum farþegum var komið í skjól og bílar skildir eftir.
Veðrið virðist vera að ganga niður en þó er slæm færð víða og fólk beðið um að fara varlega og bíða með ónauðsynleg ferðalög.