Björgunarsveitir sinntu á annað hundrað útköllum

Flugbjörgunarsveitin Hellu í útkalli í morgun. Ljósmynd/FBSH

Óveðrið á Suðurlandi virðist vera að ganga niður en rauð viðvörun er úr gildi kl. 12. Þá tekur við appelsínugul viðvörun til kl. 14 og síðan gul fram á kvöld.

Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa farið í á annað hundrað útköll síðustu klukkutímana. Á Hellu var svæðisstjórn virkjuð kl. 4 í nótt og frá klukkan fimm hafa félagar í Flugbjörgunarsveitinni Hellu sinnt tugum útkalla. Þar hafa þakplötur fokið, tré fallið niður og grindverk og pallar losnað.

Þá var sérútbúinn bíll frá Flugbjörgunarsveitinni á Hellu sendur á Selfoss til þess að aðstoða við sjúkraflutninga í Árnessýslu.

60 m/sek hviða undir Eyjafjöllum og mælirinn úti
Klukkan 5 í morgun var vindhraðinn 37 m/sek á Steinum undir Eyjafjöllum og sterkustu hviður slógu í 60 m/sek þar í morgun. Veðurstöðin á Steinum hefur ekki skilað upplýsingum frá því kl. 7 í morgun.

Lokað milli Selfoss og Breiðdalsvíkur
Hellisheiði, Þrengsli og Sandskeiði var lokað í nótt vegna veðurs, sem og Suðurstrandarvegi en hann hefur verið opnaður aftur. Þjóðvegur 1 er lokaður á milli Selfoss og Breiðdalsvíkur, sem er einsdæmi.

Rafmagnstruflanir um allt Suðurland
Rafmagnstruflanir og rafmagnsleysi hefur verið víða á Suðurlandi en vinna við viðgerð er víðast hvar hafin. Rafmagnslaust er á nokkrum bæjum undir Eyjafjöllum. Rafmagnslaust er í Vík og í Mýrdal en rafmagn er skammtað í Vík. Íbúar eru beðnir um að spara rafmagn.

Rafmagnslaust er í uppsveitum Árnessýslu, þ.m.t. hluti Biskupstungnanna. Rafmagnslaust er við Þingvallavatn frá Miðfelli að Mjóanesi. Þá er rafmagnslaust í Holtum, Landsveit og upp með Heklubæjum. Einnig er rafmagnslaust í Landeyjum og eru 27 staurar brotnir þar. Línan milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur er úti og þar með er rafmagnslaust í Álftaveri, Meðallandi og hluta Skaftártungna.

Vinnuflokkar eru farnir af stað í Árnessýslu, en enn er erfitt að komast til vinnu í Rangárvallarsýslu og Skaftafellssýslum. Þessu til viðbótar er eldingaveður að koma yfir landið og það getur bæði valdið truflunum, en einnig getur þetta tafið fyrir truflanaleit og viðgerðum.

Heitavatnslaust hjá Rangárveitum
Vegna rafmsagnsleysis hjá RARIK er engu heitu vatni dælt frá Laugalandi og Kaldárholti þar sem framleiðsla heits vatns fyrir Rangárveitur á sér stað. Rangárveitur þjóna Rangárþingi ytra og eystra og Ásahreppi, þ.m.t. Hellu, Hvolsvelli og Gunnarsholti. Lágur þrýstingur eða heitavatnsleysi er nú á öllu svæðinu. Fólki er bent á að hafa glugga lokaða og dyr ekki opnar lengur en nauðsyn krefur til að halda hita á húsum sínum.

Þegar rafmagn kemur aftur á má búast við að töluverðan tíma taki að ná aftur upp þrýstingi í hitaveitunni. Íbúar eru hvattir til að fara afar vel með heita vatnið á meðan á því stendur svo það gangi sem hraðast fyrir sig.

Truflanir geta verið á afhendingu á köldu vatni í Landsveit og Holtum vegna rafmagnsleysis.

Fyrri greinÁttaði mig á að ég var að knúsa Jónínu Ben . . .
Næsta grein„Með því verra sem maður hefur séð“