"Það skipti sköpum að björgunarsveitarmenn voru á vakt sitt hvoru megin við Múlakvísl," segir Gunnar Stefánsson, sviðsstjóri hjá Landsbjörgu.
Rúta sem er notuð til að ferja fólk yfir Múlakvísl lenti í vandræðum eftir hádegi í dag. Rútan festist í djúpum ál og strax var farið að flæða upp undir glugga og hætta var talin á því að rútan færi á hliðina.
Björgunarsveitarmenn tóku strax stjórn á vettvangi og var Man-trukkur frá Víkverjum sendur strax út að rútunni og fólkið ferjað yfir á pallinn. Síðan var fólkið ferjað í land á öðrum trukki sem var á svæðinu og hefur verið notaður til að ferja bíla yfir ána.
Að sögn Gunnars gengu björgunaraðgerðir mjög vel og var búið að ferja alla í land á örfáum mínútum. Allar sveitir á svæði 16 voru kallaðar út til aðstoðar en þar sem búið var að koma öllum í land var ekki þörf á meiri aðstoð. Einnig var kallað eftir sjúkrabílum þar sem minniháttar meiðsli voru á farþegum.
Ákvörðun var tekin í gær að styrkja hálendisvaktina á Fjallabaksleið og að Múlakvísl yrði vöktuð. Að Fjallabaki verður bætt við einum hóp en hann mun hafa aðsetur í Hólaskjóli í Skaftárhreppi.
Við Múlakvísl verður bíll á vakt sitt hvoru megin við ána frá 7 til kl. 24. Gunnar segir að vel hafi gengið að manna þessar vaktir og eru fyrstu vaktirnar komnar til starfa.