Björgvin Jóhannesson hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í prófkjöri 29. maí næstkomandi.
Björgvin er úr Mýrdalnum en býr á Selfossi ásamt eiginkonu sinni, Höllu Rós Arnarsdóttur, og þremur dætrum. Þau hjónin starfa bæði við Ferðaþjónustuna Efstadal í Bláskógabyggð, en Björgvin var áður hótelstjóri Hótels Kötlu á Höfðabrekku í Mýrdal.
Í tilkynningu frá Björgvini segir að hann sé áhugasamur um að vinna að öllum framfaramálum í kjördæminu og fyrir landið í heild. Hann vill nýta reynslu sína af rekstri og stjórnun í að gefa litlum og meðalstórum fyrirtækjum sterkari rödd og meiri slagkraft. Forgangsmál er að ráðast gegn atvinnuleysi svo sem með því að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja og gera þeim kleift að snúa hratt vörn í sókn þegar áhrif COVID-19 á atvinnulífið minnka.
Björgvin er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Ásamt störfum sínum innan ferðaþjónustunnar hefur hann gegnt ýmsum trúnaðarstörfum. Björgvin var varaoddviti fyrir D-listann og formaður fræðslunefndar Mýrdalshrepps 2006-2008 og stjórnarmaður í Skólaskrifstofu Suðurlands á sama tíma. Hann var formaður Félags ferðaþjónustubænda 2017-2019 og á sæti í stjórn Ferðaþjónustu bænda hf.