Björgvin G. Sigurðsson tók sæti á Alþingi í vikunni fyrir Samfylkinguna sem varaþingmaður fyrir Oddnýju Harðardóttur.
Björgvin hefur í vikunni lagt fram nokkrar fyrirspurnir á þinginu til ráðherra, sem varða málefni á Suðurlandi.
Þannig lagði hann fram spurningar til mennta- og menningarmálaráðherra um framtíð starfsemi Háskóla Íslands á Laugarvatni.
Björgvin spyr hver séu áform stjórnvalda um framtíð starfsemi Háskóla Íslands á Laugarvatni og hvort uppi séu hugmyndir um að flytja starfsemina í burtu. Þá spurði Björgvin hvort það standi yfir viðræður við Háskólafélag Suðurlands um samstarf um átaksverkefni til að efla starfsemi HÍ á Laugarvatni?
Félags- og húsnæðismálaráðherra fékk spurningar frá Björgvini um framtíð ART-verkefnisins. Hvað líði samningi velferðarráðuneytisins við sveitarfélög á Suðurlandi um framhald ART-verkefnisins og hvort það standi yfir viðræður um samning og hvenær sé gert ráð fyrir að þeim ljúki. Þá spurði Björgvin hver séu áætluð framlög til verkefnisins og lengd samnings um það.
Björgvin beindi einnig spurningum til innanríkisráðherra um kostnað við ljósleiðaravæðingu landsins. Hver sé áætlaður heildarkostnaður, sundurliðaður eftir landshlutum, við ljósleiðaravæðingu landsins alls þannig að öll sveitarfélög landsins tengist ljósleiðara og geti lagt hann að hverju heimili og fyrirtæki. Einnig hvort til sé tímasett áætlun um aðkomu ríkisvaldsins að ljósleiðaravæðingu landsins alls og hvort nú standi yfir viðræður við sveitarfélögin um ljósleiðaravæðingu.
Björgvin óskaði skriflegra svara við öllum þessum spurningum.