Björgvin G. Sigurðsson, alþingismaður og fyrrverandi viðskiptaráðherra, ætlar að víkja tímabundið af þingi. Björgvin segir að vera hans á þinginu gæti komið til með að trufla þá vinnu sem snýr að því að ákvarða ábyrgð ráðherra.
„Meðal þess sem sérstök þingmannanefnd um skýrsluna þarf að vinna úr eru mál sem snúa að ábyrgð ráðherra. Slík úrvinnsla á sér engin fordæmi og brýnt er að til hennar sé vandað svo sem mest má verða og ekkert verði til þess að draga úr trúverðugleika þeirrar vinnu,“ segir í tilkynningu frá Björgvin.
„Ég tel að vera mín í þinginu á þeim tíma gæti truflað þessa vandasömu vinnu og tel því rétt við þessar aðstæður að víkja tímabundið sæti á Alþingi á meðan þingmenn komast að niðurstöðu í þessu mikilvæga máli.“
Anna Margrét Guðjónsdóttir, 1. varamaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, tekur sæti Björgvins á þingi. Í samtali við sunnlenska.is sagðist Anna Margrét ekki vita í hve langan tíma hún þyrfti að leysa Björgvin af.