Björn Steinar ráðinn framkvæmdastjóri fjármála

Björn Steinar Pálmason hefur verið skipaður í stöðu framkvæmdastjóra fjármála hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands frá 1. nóvember næstkomandi til 5 ára.

Hann mun taka við stöðunni þann 1. desember nk., en þá mun Esther Óskarsdóttir framkvæmdastjóri fjármála láta af störfum eftir 33 ára starf hjá stofnuninni.

Björn Steinar er fæddur árið 1967. Hann lauk BA gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1994 og viðbótarmenntun í rekstri og viðskiptum frá Endurmenntun Háskóla Íslands árið 1996. Björn lauk MBA gráðu í viðskiptafræði frá University of Edinburgh Business School árið 2002. Árið 2009 lauk Björn námi frá Endurmenntun Háskóla Íslands í verkefnastjórnun og hefur hlotið IPMA D-vottun í verkefnastjórnun.

Björn Steinar hefur víðtæka reynslu af opinberum rekstri og úr bankakerfinu. Hann hefur frá 2014 verið sjálfstætt starfandi fjármálasérfræðingur og m.a. sinnt úttektum á rekstri fyrir sveitarfélög. Frá 2010-2014 var hann framkvæmdastjóri og bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar.

Fyrri greinEkki breytingar að sjá við brúna
Næsta greinEldri borgarar aðstoða við lestrarkennslu