Björt Ólafsdóttir frá Torfastöðum í Biskupstungum verður umhverfis- og auðlindaráðherra í nýrri ríkisstjórn Bjartrar framtíðar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar.
Björt er fædd á Torfastöðum 2. mars 1983. Maki hennar er Birgir Viðarsson og saman eiga þau þrjú börn.
Björt lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 2003, BA prófi í sálfræði og kynjafræði 2007 og MSc. prófi í mannauðsstjórnun frá Háskólanum í Lundi árið 2008.
Björt starfaði sem meðferðarfulltrúi við Meðferðarheimilið að Torfastöðum á árunum 1997-2004 og stuðningsfulltrúi og verkefnastjóri á geðdeildum LSH með námi 2006-2009. Hún sinnti viðskiptaþróun og mannauðsmálum í vinnu sinni á ráðgjafar- og þjónustumiðstöðinni Vinun á árunum 2010-2011 og var mannauðs- og stjórnunarráðgjafi hjá Capacent 2011-2013.
Björt hefur setið sem alþingismaður fyrir hönd Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi norður síðan 2013, verið 6. varaforseti Alþingis og formaður þingflokks Bjartrar framtíðar frá 2016. Björt átti sætti í atvinnuveganefnd 2013-2016, velferðarnefnd 2013-2015 og efnhags- og viðskiptanefnd og kjörbréfanefnd Alþingis frá 2016.
Björt var formaður Geðhjálpar á árunum 2010-2013.