Grósku- og sköpunarmiðstöðin Skrúfan á Eyrarbakka stendur fyrir happdrætti til að tryggja áframhaldandi starfsemi Skrúfunnar.
„Ég hef ekki rekið Skrúfuna til að græða – hef ekki fengið laun og alltaf rétt náð fyrir rekstrinum, leigu og öðru. Eftir mikla vinnutörn ákvað ég að eiga frí í júlí. Ég hefði betur mátt vita að það væri ekki hægt þegar maður er með svona samfélagsverkefni í gangi og þau stoppa ekkert. Ég sé því fram á að þurfa að borga sjálf leigu og annað næstu mánuði nema ég geti bjargað Skrúfunni,“ segir Berglind Björgvinsdóttir, eigandi Skrúfunnar, í samtali við sunnlenska.is.
Berglind segir að leigan sé langstærsti kostnaðarliðurinn við Skrúfuna og henni þætti ekki óeðlilegt að Sveitarfélagið Árborg myndi hlaupa undir bagga þar, eins og það gerir til dæmis hjá Brimrót á Stokkseyri og Konubókastofu á Eyrarbakka.
Elskar að gleðja aðra
Berglind vonast til að viðtökurnar við sumarhappdrættinu verði góðar svo að hún geti haldið starfsemi Skrúfunnar áfram. „Mig langar ekki að loka því ég elska Skrúfuna og elska að gleðja aðra, en ef ég mun þurfa borga leiguna úr eigin vasa næstu mánuði þá verð ég að loka.“
„Mig langaði því að reyna að fá samfélagið með og hjálpa eftir þetta sumar svo við getum hafið vetrarstarfið. Þess vegna ætlum við að vera með sumarhappdrætti. Meðal vinninga eru hlaupaskór frá Brooks, gjafabréf á Hótel Selfoss, gjafabréf á Von, gjafabréf í spa, gjafabréf í pizzur, listaverk og fleira. Ef fleiri fyrirtæki vilja gefa vinninga þá mega þau endilega hafa samband við mig. Ég vil reyna þetta áður en ég þarf að taka það skref að segja upp leigunni. Skrúfan er fyrir allt samfélagið – ekki bara einhvern einn,“ segir Berglind að lokum.
Þeir sem hafa áhuga á að kaupa happdrættismiða og styðja um leið við bakið á Skrúfunni, geta sent póst á skrufan@skrufan.is. Miðinn kostar 1.500 kr.