Leiðinda rok hefur verið víða á Suðurlandi í dag og hafa aftanívagnar og trampólín verið á ferð og flugi.
Rétt fyrir klukkan tíu í morgun fauk bíll með hjólhýsi af veginum undir Ingólfsfjalli. Engan sakaði.
Gámasvæði Árborgar við Víkurheiði var lokað í dag vegna veðurs og Vegagerðin varaði fólk við sandfoki við Óseyrabrú. Allmörg trampólín hafa verið á flugi á Selfossi, sömuleiðis trjágreinar og annar gróður sem hefur brotnað í hvassviðrinu.
Sírenurnar, sem hafa verið einstaklega fallegar í sumar eftir gott síðasta sumar, hafa misst blómin í stórum stíl sem hefur gert það að verkum að sums staðar á Selfossi hefur snjóað bleiku eins og myndin sem fylgir fréttinni ber með sér.
Lægja á með kvöldinu.