„Bleika boðið er árshátíðin okkar“

Bleika boðið er stærsti fjáröflunarviðburður Krabbameinsfélags Árnessýslu. Í fyrra söfnuðust rúmar 4 milljónir. Ljósmynd/Aðsend

Bleika boðið verður haldið í sjötta sinn næstkomandi föstudag á Hótel Selfoss. Bleika boðið er stærsti fjáröflunarviðburður Krabbameinsfélags Árnessýslu þar sem fjármagni til starfseminnar er safnað. Fyrst og fremst er viðburðurinn tækifæri til að koma saman og eiga skemmtilega kvöldstund.

„Það er ávallt mikil spenna og tilhlökkun fyrir Bleika boðinu, undirbúningur hefst vanalega í mars og nær svo hápunkti í september og október. Það er svo magnað að upplifa kvöldið með öllu fólkinu, sjá gleðina sem skín úr hverju andliti, finna kraftinn í salnum og upplifa stolt af allri þeirri vinnu sem sjálfboðaliðar leggja í viðburðinn og starfsemi félagsins,“ segir Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Lítil hugmynd sem vatt upp á sig
Bleika boðið byrjaði með lítilli hugmynd um happdrættisviðburð sem haldinn var í Tryggvaskála í október 2018 þar sem mættu um hundrað manns. Sú litla hugmynd hefur heldur betur stækkað og hefur Hótel Selfoss hýst viðburðinn eftir það og hefur þátttakan aukist með hverju árinu.

Frítt er inn á viðburðinn en fólki gefst kostur á að kaupa sér happdrættismiða á þrjú þúsund krónur. Engin takmörk fyrir því hversu marga miða hver og einn má kaupa sér.

Tómas Þóroddsson veitingamaður býður gestum upp á léttar veitingar, veislustjóri kvöldsins ásamt sjálfboðaliðum félagsins sjá um að draga út happdrættisvinningana, uppistandari kvöldsins kemur frá umboðsskrifstofunni Móðurskipinu og Grétar Lárus tónlistarmaður spilar á sviðinu.

„Allir sem koma að Bleika boðinu, hvort sem það eru listamenn eða aðrir, gefa vinnu sína þetta kvöld. Í ár mun Tilefni.is sjá um skreytingar á salnum og er mikil eftirvænting innan félagsins að líta salinn augum þegar gengið verður inn. Lindex gefur fyrstu hundrað konunum gjafapoka þegar þær mæta og fyrstu fimmtíu karlarnir fá einnig gjafapoka frá mismunandi gefendum.“

Bleika boðið er tækifæri til að koma saman og eiga skemmtilega kvöldstund. Ljósmynd/Aðsend

Líka fyrir karlmenn
Svanhildur segir að það sé algengur misskilningur að Bleika boðið sé bara fyrir konur. „Bleika boðið ber þetta heiti eingöngu í tengslum við bleikan október en Bleika boðið er fyrir alla sem langar að koma. Það hefur tekið smá tíma að leiðrétta þann misskilning að Bleika boðið sé bara fyrir konur en það er að hafast og karlmönnum fjölgar með hverju árinu þó konur séu enn í meirihluta.“

„Okkur líður pínu eins og Bleika boðið sé árshátíðin okkar, því þar kemur saman fólk allstaðar úr samfélaginu og töluvert af gestum sem leggur leið sína til okkar annars staðar frá.“

„Krabbameinsfélagið er fyrir alla og þess vegna finnst okkur svo mikilvægt að bjóða uppá möguleikann að sameinast á svona skemmtun og finna svo sterkt hvað við erum eitt samfélag þó við komum úr ólíkum áttum. Fjáröflunin er ekki síður mikilvæg fyrir félagið sem sífellt er að eflast, úrræðum að fjölga og fleiri nýta stuðning félagsins.“

119 vinningar
Svanhildur segir að þau hjá Krabbameinsfélaginu séu klár fyrir föstudaginn og búin að pakka inn og merkja alla vinningana.

„Enn á ný er um gríðarlegan fjölda vinninga að ræða en þess má geta að 119 fyrirtæki eða einstaklingar hafa lagt boðinu lið. Ef einhverjir hafa áhuga á að gefa vinninga þá má endilega heyra í okkur og við myndum þá eiga vinningana til góða á næsta ári eða nota í vinninga í Mottumars, en við erum nú þegar byrjuð að huga að stórum viðburði í mars,“ segir Svanhildur að lokum.

Fyrri greinSelfoss mætir Fram aftur
Næsta greinTugir milljóna í ýmsan kostnað eftir fall Hamarshallarinnar