Í nýliðnum október runnu fimm hundruð krónur af hverri seldri bleikjupönnu hjá veitingastaðnum Messanum á Selfossi til Krabbameinsfélags Árnessýslu.
Alls seldust 1.370 skammtar sem skiluðu sér í 685.000 krónur styrk til félagsins.
„Þau hjá Krabbameinsfélagi Árnessýslu hafa unnið frábært starf og mig einfaldlega langaði að láta gott af mér leiða,“ segir Tómas Þóroddsson, hjá Messanum, í samtali við sunnlenska.is.
Þetta er í annað sinn sem Tómas styrkir Krabbameinsfélagið með þessum hætti en hann lét einnig hluta af ágóðanum af allri seldri bleikju í fyrra renna til félagsins. „Það voru enn betri viðtökur í ár, svo að við gerum þetta pottþétt á næsta ári líka.“
Tómas segir að fólk hafi verið meðvitað þegar það keypti bleikjupönnu að það væri að styrkja krabbameinsfélagið og að það hafi jafnvel frekar valið þann rétt af matseðli fram yfir aðra.
Hefur styrkt félagið á margan hátt
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu, var að vonum ánægð með þessa rausnarlegu gjöf frá Tómasi og Messanum.
„Tommi hefur styrkt félagið á mjög margan hátt í gegnum tíðina þó að þetta sé kannski meira merkt bleikum október. Hann hefur verið að styrkja félagið í starfseminni sjálfri en hann hefur til dæmis kennt endurhæfingarhópnum að elda og ef við erum með viðburði og ætlum að bjóða upp á súpu þá höfum við samband við Tomma. Hann hefur komið að á svo margan hátt,“ segir Svanhildur, þakklát fyrir allan stuðninginn í gegnum árin.
Svanhildur segir að það sé skemmtilegt að fólk hafi verið að kaupa bleikju í bleikum október til styrktar félaginu. „Þetta er líka til að efla vitundarvakninguna. Fyrir starfsemi félagsins þá skiptir þetta miklu máli. Og þetta er hvatning til okkar – að gera ennþá betur. Við finnum svo mikinn velvilja úr samfélaginu.“
Mikilvægt fyrir félagsstarfið
Svanhildur segir að þau séu stöðugt að efla starfsemina og öll svona framlög, lítil og stór, skipti þau miklu máli. „Við erum stöðugt að efla endurhæfingarhópinn okkar. Hann er að stækka og styrkjast og það er alltaf meira í gangi fyrir þann hóp. Ef við horfum til framtíðar þá væri frábært ef við gætum haft opið á daginn og verið meiri svona miðstöð – það væri frábær framtíðarsýn,“ segir Svanhildur og segir að félagið sé að þokast í þá áttina.
„Það er frábært ef fólk vill láta gott af sér leiða og það er mikilvægt að fólk viti að styrkirnir sem við fáum eru að fara inn í félagsstarfið. Í rauninni viljum við að fólk nýti sér ennþá meira þá þjónustu sem við erum að halda úti. Núna í desember erum við að horfa á meiri félagslega samveru. Við erum til dæmis með viðburð annan desember sem snýr að fjölskyldunni en þá erum við að skreyta piparkökuhús. Áhersla okkar er svolítið að efla aðstandendur og í augnablikinu er það svolítið fókusinn hjá okkur,“ segir Svanhildur að lokum.